Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur víða farið á ferli sínum í körfuboltanum og hefur spilað í mörgum landshornum.
Þegar Tindastóll varð Íslandsmeistari í gærkvöldi náði Sigurður þeim merkilega áfanga að verða Íslandsmeistari með þriðja liðinu í meistaraflokki.
Sigurður hóf ferilinn með KFÍ fyrir vestan en fór sem ungur leikmaður í sigursælt lið Keflavíkur. Þar varð hann Íslandsmeistari árið 2008.
Sigurður var í stóru hlutverki í sterku liði Grindavíkur sem varð Íslandsmeistari tvö ár í röð 2013 og 2014.
Tindastóll er því þriðja liðið sem Sigurður meistari með en hann hefur farið með fjórum liðum í úrslit Íslandsmótsins. Sigurður var lykilmaður í liði ÍR sem tapaði 3:2 fyrir KR í úrslitum 2018 en hafði áður leikið erlendis um tíma.
Sigurður var í liði Stólanna sem tapaði í úrslitum í fyrra fyrir Val en hafði í millitíðinni leikið með Hetti á Egilsstöðum og hefur því búið víða á landsbyggðinni.
Þjálfari hans Pavel Ermolinskij varð einnig Íslandsmeistari með þriðja liðinu en nú í þjálfarahlutverki. Hann varð átta sinnum meistari með KR og Val.