Næ ekki að meta verðlaunin nógu mikils strax

Kári Jónsson var valinn leikmaður ársins og í lið ársins.
Kári Jónsson var valinn leikmaður ársins og í lið ársins. Ljósmynd/KKÍ

„Þetta er vissulega súrsætt. Maður er kannski ennþá aðeins dofinn og ekki alveg búinn að jafna sig eftir gærkvöldið,“ sagði Kári Jónsson, bakvörður Vals og leikmaður ársins í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, í samtali við mbl.is.

Í gærkvöldi tapaði Valur með einu stigi fyrir Tindastóli í oddaleik úrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitilinn og sárið því opið.

Í hádeginu í dag  fór fram verðlauna­hátíð Körfuknatt­leiks­sam­bands Íslands í Laugardal, þar sem Kári var valinn leikmaður ársins og í lið ársins.

„Maður nær kannski ekki að meta þessi verðlaun alveg nógu mikils, ekki strax allavega, en eftir nokkra daga þegar við erum búnir að jafna okkur aðeins betur á þessu þá held ég að við getum alveg litið stoltir á þetta tímabil.

Við vorum einum grátlegum leik, sem hefði getað dottið hvoru megin sem var, frá því að vinna allt sem hægt er að vinna í vetur. Seinna meir getum við verið stoltir af því en núna erum við ennþá súrir og svekktir,“ sagði hann.

Í alls konar brasi

Valur varð bikar- og deildarmeistari á tímabilinu auk þess að vinna leikinn um meistara meistaranna og var því nálægt að vinna fjórfalt.

Kári með boltann í oddaleiknum í gærkvöldi.
Kári með boltann í oddaleiknum í gærkvöldi. mbl.is/Óttar Geirsson

Kári kvaðst sáttur við eigin frammistöðu á tímabilinu en hrósaði liði Vals í hástert.

„Jú, jú, það var nokkuð góður taktur í þessu í gegnum allt tímabilið. Við lentum í alls konar brasi yfir tímabilið, mikið um hnjask og Finnur [Freyr Stefánsson] þjálfari missir svolítið úr. En mér fannst ég persónulega ná að halda ágætis takti megnið af tímabilinu og við gerðum vel.

Við erum rútínerað lið og það eru miklir karakterar í hópnum, sigurvegarar. Það sýndi sig oft, spilamennskan var kannski ekki alltaf upp á tíu hjá okkur en við fundum leiðir til þess að vinna leikina og gerðum það virkilega vel.“

Get stokkið á það

Þrátt fyrir að búa yfir gífurlegri reynslu er Kári ekki á háum aldri, 25 ára gamall. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir hann?

„Það er bara í skoðun. Ég er náttúrlega samningsbundinn Val, ég samdi við þá fyrr á árinu. En ég er með möguleika í samningnum sem er fólginn í því að ef það kemur eitthvað spennandi að utan þá get ég stokkið á það.

Það verður bara að koma í ljós hvernig markaðurinn verður og maður er eiginlega ekkert kominn þangað ennþá. Það eru tólf klukkutímar síðan við kláruðum tímabilið þannig að maður er ennþá að sleikja sárin,“ sagði Kári að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert