Axel Kárason, leikmaður Tindastóls, var að vonum mjög glaður eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í gærkvöldi með eins stigs sigri á Val, 82:81, í Origo-höllinni á Hlíðarenda.
„Tilfinningin er mjög góð. Hún er aðeins sérstök, maður er ekki alveg búinn að melta allt ferlið enn þá. Maður tapar sér alveg í svona fimm til tíu mínútur, maður veit ekkert hvað maður á að hugsa eða hvernig manni á að líða.“
Leikurinn var æsispennandi allt til enda en að lokum var það Antonio Woods sem tryggði Tindastóli sigurinn með því að setja niður þrjú vítaskot þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka.
„Leikurinn vannst á því að við náðum að halda haus varnarlega þó að sóknin væri ekki alveg nógu góð. Auðvitað voru fullt af skotum sem voru að rúlla upp úr og fóru ekki ofan í en það var áhugvert að það kom aldrei neitt mikið áhlaup frá okkur, við vorum bara að saxa hægt og rólega á þetta, 5:0-kaflar hér og þar. Þetta var gamla góða seiglan.“
Það var ótrúlegur fjöldi Skagfirðinga sem gerði sér ferð í Origo-höllina til að styðja við bakið á sínum mönnum og segir Axel stuðninginn ekki vera sjálfgefinn.
„Þetta er 40 ára vinna, að búa til stemninguna og menninguna. Það er þetta sem félagslífið snýst um. Maður er búinn að finna fyrir því síðustu tvö ár að áhuginn hefur aukist ef eitthvað er, en þetta er bara 40 ára vinna að fara frá því að vera í fyrstu deild yfir í að vera með svona ofboðslega sterka áhorfendur.
Í fyrra voru níu vikur þar sem ekkert annað komst að nema körfubolti í allri sýslunni, til sjávar og sveita. Þetta er eins núna, það kemst ekkert annað að.“
Axel er á 40. aldursári en segist ekki hafa tekið neina ákvörðun enn þá hvort þetta hafi verið hans síðasta tímabil.
„Ég ætla bara að lifa í smá núvitund núna. Ef ég reyni að koma með góða myndlíkingu, þá er ég með nokkur spil á hendi í einkalífinu. Nú er körfuboltinn „loksins“ búinn og þá get ég aðeins farið að leggja þau spil á borðið. Gefum okkur smá tíma í það, maður á ekki að flýta sér.“