Þetta er virkileg gleði

Pavel Ermolinskij á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Pavel Ermolinskij á hliðarlínunni í gærkvöldi. mbl.is/Óttar Geirsson

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, var eðlilega mjög glaður eftir að liðið varð Íslandsmeistari í körfubolta í gærkvöldi með eins stigs sigri á Val, 82:81, í oddaleik úrslitaeinvígsins.

„Þetta er bara virkileg gleði, að fá að vera með. Ég horfi á þetta þannig. Ég er að koma inn í þetta apparat sem er búið að vera í gangi í mörg ár og ég er bara þakklátur fyrir að hafa fengið að vera með og að hafa haft einhver áhrif á þetta.“

Pavel tók við liðinu á miðju tímabili og sneri gengi þess algjörlega við. Hann talaði um þegar hann tók við að það þyrfti að stilla hugarfar allra Skagfirðinga af og að það gæti verið algjört lykilatriði í að landa þeim stóra.

„Það þurfti að stýra hugarfarinu í einhverja átt. Hugarfarið hjá Tindastóli og á Sauðarkróki er til fyrirmyndar en það þurfti bara að beisla þessa orku aðeins. Svo þurfa menn bara að spila vel, þetta snýst allt um leikmennina. Þeir verða að fá heiðurinn af þessu öllu saman, því þegar uppi er staðið eru það leikmennirnir sem stýra útkomunni í kvöld.“

Þegar skammt var eftir af leiknum var Tindastólsliðið fimm stigum undir en lét það ekki á sig fá, kom til baka og vann að lokum leikinn.

„Þessar lokamínútur voru bara eins og hinar 40 mínúturnar. Við héldum bara áfram. Við ætluðum bara að koma okkur á þann stað að við gætum átt möguleika á að vinna. Við nálguðumst síðustu 90 sekúndurnar í leiknum alveg eins og við nálguðumst hinar 40 mínúturnar.“

Þetta er níundi Íslandsmeistaratitill Pavels á ferlinum en hann varð átta sinnum meistari sem leikmaður. Hann segir þó ekki hægt að bera það saman að verða meistari sem leikmaður og þjálfari.

„Þetta er ekki góð spurning. Þessi titill er bara fyrir utan einhvern sviga. Ég er í öðru hlutverki þannig að ég get ekki borið þá saman. Þetta er fyrsti í þessu hlutverki,“ sagði Pavel léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert