„Mér líður enn þá mjög vel. Þetta er mjög góð tilfinning,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson í samtali við Morgunblaðið. Pétur varð á fimmtudag Íslandsmeistari í körfubolta með uppeldisfélagi sínu Tindastóli, eftir 82:81-útisigur á Val í oddaleik á Hlíðarenda.
„Ég keyrði á Krókinn í morgun (gær) og maður gat varla þurrkað af sér brosið alla leiðina. Þetta er rosalega góð tilfinning og mér líður vel,“ sagði Pétur.
Íslandsmeistaratitillinn er sá fyrsti í sögu Tindastóls, en Pétur, sem er 27 ára, hefur leikið með liðinu allan ferilinn. Hann lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki árið 2013 og hefur verið lykilmaður alla tíð síðan. Pétur hefur í þrígang tapað úrslitaeinvígi með Tindastóli og var sigurinn á fimmtudag því afar kærkominn.
„Maður er búinn að vera oft í þeirri stöðu að missa þetta úr greipum sér og það er rosalega ljúft að ná loksins að klára þetta. Ég held það sé ekki hægt að ímynda sér þessa tilfinningu. Hún kemur bara þegar hún kemur. Ég vona að þessi tilfinning endist lengi og allir í samfélaginu taki þátt í þessari gleði,“ sagði hann.
Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.