Miami Heat er komið í 2:0 í úrslitaeinvígi sínu við Boston Celtics í Austurdeild NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir að hafa unnið annan leik liðanna, 111:105, í Boston í nótt.
Boston var með undirtökin stærstan hluta leiksins og leiddi, nema þegar mestu máli skipti, í fjórða og síðasta leikhluta.
Þá tók Miami leikinn yfir, sneri honum sér í vil og vann að lokum afar sterkan sex stiga sigur.
Jimmy Butler var einu sinni sem áður stigahæstur í liði Miami með 27 stig auk þess að taka átta fráköst og gefa sex stoðsendingar.
Caleb Martin bætti við 25 stigum og Bam Adebayo skoraði 22 stig, tók 17 fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Jayson Tatum með 34 stig fyrir Boston. Tók hann auk þess 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar, þar sem sigurvegarinn mætir sigurvegara Vesturdeildarinnar, annað hvort Denver Nuggets eða LA Lakers. Þar leiðir Denver 2:0.