Nýkrýndir Íslandsmeistarar Tindastóls í körfubolta halda sigurhátið sína í kvöld í Miðgarði í Varmahlíð. Á leið sinni í Miðgarð ók liðsrútan sigurhring um Sauðárkrók og var hetjunum vel fagnað af stuðningsfólki sínu.
Feykir, héraðsfréttablað Norðurlands Vestra birti myndskeið af stemningunni á fréttavef sínum í kvöld.
Tindastóll lagði Íslandsmeistara Vals frá í fyrra í oddaleik í troðfullu íþróttahúsi á Hlíðarenda. Þannig urðu Sauðkrækingar ekki aðeins meistarar í fyrsta skipti heldur hefndu þeir ófaranna frá því fyrir ári þegar Valur vann úrslitaeinvígi liðanna eftir oddaleik.
Sjaldan hefur verið eins mikið umtal, spenna og eftirvænting fyrir einum íþróttaleik hér á landi. Húsið var troðfullt tveimur tímum fyrir leik og komust töluvert færri að en vildu.
Sjálfsagt verður skagfirsk sveifla langt fram undir morgun í Miðgarði, kúrekahattar og línudans.