Stuðningsmennirnir þekkja íþróttina

Axel Kárason og fjölskylda fagnar áfanganum á Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið. …
Axel Kárason og fjölskylda fagnar áfanganum á Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið. Kári Marísson er lengst til hægri. Arnar og Kristín sem eru lengst til vinstri urðu Íslandsmeistarar með KR um aldamótin.

Þegar fólk veltir fyrir sér körfuknattleiknum á Sauðárkróki kemur nafn Kára Maríssonar gjarnan upp í hugann.

Maður sem flutti í Skagafjörðinn árið 1978 og hefur síðan þá lagt þúsundir stunda í starf Tindastóls með einum eða öðrum hætti. 

Kári var að sjálfsögðu mættur á Hlíðarenda þegar Tindastóll varð Íslandsmeistari í meistaraflokki í körfuknattleik fyrsta skipti á fimmtudagskvöldið eftir æsispennandi úrslitarimmu við Val. Axel sonur Kára er á meðal reyndustu leikmanna Tindastóls. 

„Alla þessa áratugi frá því ég kom hef ég verið í þjálfuninni og í uppeldisstarfinu. Körfuboltaiðkun yngri flokka hefur alltaf verið gríðarlega öflug á Króknum. Sem dæmi nefna að iðkendur úr yngri flokkunum sem í dag eru á aldrinum 25 til 50 ára eru uppistaðan í þeim hópi sem eru á pöllunum á leikjum Tindastóls á höfuðborgarsvæðinu og koma svo hingað á stóru leikina. Stuðningsmennirnir eru fólk sem hefur æft íþróttina og þekkir hana,“ segir Kári og margir sem hann þjálfaði í yngri flokkunum voru viðstaddir þegar Tindastóll varð meistari í fyrsta sinn.

„Þegar ég stóð í röðinni, og beið þess að komast inn í Valsheimilið, kom gamall nemandi sem ég þjálfaði í körfubolta til mín með ljósmynd. Á myndinni var 10. flokkur karla hjá Tindastóli árið 1993 sem ég þjálfaði. Liðið varð Íslandsmeistari vorið 1993 og allir úr því liði sátu í stúkunni í gær, þrjátíu árum síðar. Arnar sonur minn var í liðinu og yngri sonur minn Axel, sem varð Íslandsmeistari á fimmtudaginn, var þá 7 ára gamall liðsstjóri. Þegar ég sá myndina þá hugsaði ég með mér að þetta boðaði gott en við Íslendingar eru nú sjaldnast lausir við hjátrúna,“ segir Kári. 

Rætt er við Kára í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert