Jókerinn sló 56 ára gamalt met

Liðsfélagar og þjálfari Nikola Jokic fagna Serbanum eftir að hann …
Liðsfélagar og þjálfari Nikola Jokic fagna Serbanum eftir að hann var útnefndur verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígis Vesturdeildar. AFP/Harry How

Nikola Jokic, Serbinn magnaði í liði Denver Nuggets, sló 56 ára gamalt met í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið hafði betur gegn LA Lakers, 113:111, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar í nótt.

Jókerinn, eins og hann er jafnan kallaður, fór á kostum í nótt er hann náði þrefaldri tvennu.

Skoraði Jokic 30 stig, tók 14 fráköst og gaf 13 stoðsendingar er Denver sópaði Lakers í sumarfrí með 4:0-sigri í einvíginu.

Með því náði hann þrefaldri tvennu í áttunda sinn í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á tímabilinu, sem er nýtt met.

Fyrra met átti goðsögnin Wilt Chamberlain, en hann náði þrefaldri tvennu alls sjö sinnum í úrslitakeppninni árið 1967, þegar Chamberlain lék með Philadelphia 76ers.

Í leikslok í nótt var Jókerinn útnefndur verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígis Vesturdeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert