Kjartan Atli Kjartansson mun taka slaginn sem þjálfari karlaliðs Álftaness í körfuknattleik á næsta tímabili, þar sem liðið leikur í úrvalsdeild í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Kjartan Atli stýrði Álftanesi, uppeldisfélagi sínu, til sigurs í 1. deild á nýafstöðnu tímabili en hafði undanfarið legið undir feldi þegar kom að ákvörðun um hvort hann myndi halda áfram sem þjálfari Álftaness.
Var það fyrst og fremst vegna þess að Kjartan Atli hefur undanfarin átta ár starfað hinum megin við borðið sem þáttastjórnandi Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, þar sem fjallað er um efstu deildir karla og kvenna í körfuknattleik.
Í samtali við Vísi staðfesti hann hins vegar að hann verði áfram þjálfari hjá Álftanesi á þeim tímamótum sem liðið stendur frammi fyrir á næsta tímabili.
„Verkefnið á Álftanesi er líka spennandi og þrátt fyrir að það sé erfitt að kveðja Körfuboltakvöld horfir maður björtum augum á framtíðina.
Ég hlakka til að vera hinum megin við borðið og mun eiga auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem spyrja spurninga og gagnrýna,“ sagði Kjartan Atli.