Elvar Már Friðriksson og félagar í Rytas frá Vilnius eru komnir í vænlega stöðu í undanúrslitunum um meistaratitilinn í körfuboltanum í Litháen eftir útisigur á Jonava í dag, 82:67.
Rytas er þar með komið í 2:0 í einvíginu og getur gert út um það á heimavelli á fimmtudaginn.
Elvar var í stóru hlutverki og var stigahæstur hjá Rytas með 15 stig en hann átti auk þess fimm stoðsendingar og tók þrjú fráköst. Hann spilaði í 22 mínútur og fékk flest framlagsstig leikmanna Rytas, 18 talsins.
Viðbúið er að stórliðið Zalgiris Kaunas fari í úrslitaeinvígið en Zalgiris er með 1:0-forystu gegn Lietkabelis í hinu undanúrslitaeinvíginu. Rytas er ríkjandi meistari en í fyrra rauf liðið einveldi Zalgiris sem hafði unnið titilinn samfleytt frá 2011 til 2021.