Haukur Helgi Pálsson er genginn til liðs við Álftanes og mun hann leika með liðinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á komandi keppnistímabili.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Haukur Helgi, sem er 31 árs gamall, hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Njarðvík.
Hann er uppalinn hjá Fjölni í Grafarvoginum, líkt og nýr liðsfélagi hans Hörður Axel Vilhjálmsson, en Hörður Axel skrifaði einnig undir samning við Álftanes á dögunum.
Haukur Helgi á að baki 74 A-landsleiki en hann var í stóru hlutverki með landsliðinu á Evrópumótinu 2015 í Þýskalandi og Evrópumótinu 2017 í Finnlandi.