Emelía Ósk Gunnarsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Keflavíkur og leikur því áfram fyrir uppeldisfélagið á komandi keppnistímabili.
Emelía Ósk, sem fagnar 25 ára afmæli sínu á föstudag, hefur leikið með Keflavík alla tíð en tók sér hlé frá körfubolta árið 2021 þegar hún hélt til náms í Svíþjóð.
Um mitt síðasta tímabil sneri Emelía Ósk svo aftur og lék vel með Keflavík sem varð deildarmeistari og hafnaði svo í öðru sæti Íslandsmótsins og bikarkeppninnar.
„Emelía kom seint inn á síðasta tímabili og var að nálgast sitt gamla góða form undir það síðasta. Það er því mikill fengur í því að vera með hana áfram í okkar herbúðum og nú frá upphafi tímabils,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur.