Nýliðar Álftaness í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eru svo sannarlega stórhuga fyrir komandi keppnistímabil en félagið samdi á dögunum við landsliðsfyrirliðann Hörð Axel Vilhjálmsson og þá skrifaði landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson undir samning við félagið í gær.
Hörður Axel, sem er 34 ára, á að baki 86 A-landsleiki en hann rifti samningi sínum við Keflavík í byrjun mánaðarins þar sem hann var fyrirliði karlaliðsins og þjálfari kvennaliðsins.
Haukur Helgi, sem er 31 árs, á að baki 74 A-landsleiki en hann rifti samningi sínum við Njarðvík, einnig í byrjun mánaðarins.
Í vikunni tilkynntu Álftnesingur svo að Kjartan Atli Kjartansson yrði þjálfari liðsins á næstu leiktíð eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í 1. deildinni á nýliðnu keppnistímabili.
Þá hafa þeir Dino Stipcic og Eysteinn Bjarni Ævarsson, sem voru í lykilhlutverkum hjá liðinu á síðustu leiktíð, báðir framlengt samninga sína við félagið og því ljóst að liðið ætlar sér stóra hluti á næstu leiktíð.
„Það er einhver ára í kringum Álftanesið þessa dagana og ég er virkilega spenntur að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað þarna,“ sagði Haukur Helgi í samtali við Morgunblaðið.
„Það var virkilega erfið ákvörðun að taka að yfirgefa Njarðvík en þegar allt kemur til alls þá fannst mér ég þurfa nýja áskorun. Það hefur tekið á andlega, að koma heim úr atvinnumennsku, og að vera einhvern veginn alltaf meiddur og aldrei í því standi sem ég vildi óska að ég hefði verið í ef svo má segja.
Stærsta ástæðan er samt fjölskyldan þar sem við erum að flytja í bæinn. Ég vinn í Njarðvík og eftir vinnu tæki svo við æfing hjá mér. Ég væri því að koma heim seint á kvöldin og af því leiðir að ég myndi varla sjá fjölskylduna allan daginn og ég var ekki tilbúinn í það. Ég kveð Njarðvík með miklu þakklæti og stolti yfir því sem við afrekuðum og á sama tíma er ég spenntur fyrir komandi tímum.“
Viðtalið við Hauk Helga ásamt viðtali við Hörð Axel má lesa á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.