Körfuknattleiksdeild Hauka og framherjinn Hugi Hallgrímsson hafa komist að samkomulagi um að hann leiki með Hafnarfjarðarliðinu næstu tvö árin.
Hugi, sem er nýorðinn 21 árs, lék síðast með háskólaliði Angelina-háskólans í Texas-ríki í Bandaríkjunum en hefur tekið ákvörðun um að snúa aftur heim.
Hann er uppalinn hjá Vestra á Vestfjörðum og lék með liðinu í úrvalsdeild tímabilið 2021/2022. Tímabilið á undan var hann á mála hjá Stjörnunni.
Hugi, sem er 201 sentímetri á hæð, hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.