Finnur Freyr Stefánsson verður áfram þjálfari karlaliðs Vals í körfuknattleik á næsta keppnistímabili.
Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag.
Samkvæmt heimildum mbl.is stóð honum til boða að taka við þjálfun karlaliðs Keflavíkur sem er nú að leita að nýjum þjálfara eftir að Hjalti Þór Vilhjálmsson lét af störfum eftir tímabilið en Finnur hafnaði því boði.
Finnur Freyr, sem er 39 ára gamall, tók við þjálfun Vals í maí árið 2020 og gerði liðið að Íslandsmeisturum á síðustu leiktíð, tímabilið 2021-22.
Liðið varð bæði deildar- og bikarmeistari undir hans stjórn á nýliðnu keppnistímabili en Valsmenn lutu í lægra haldi í oddaleik gegn Tindastóli í úrslitum Íslandsmótsins.