Þór frá Akureyri, nýliði í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, hefur samið við Huldu Ósk Bergsteinsdóttur um að leika með liðinu á komandi tímabili. Einnig hefur körfuknattleiksdeild félagsins gert nýja samninga við tvo lykilmenn.
Hulda Ósk er 24 ára miðherji sem kemur frá KR og var valin í lið ársins í 1. deildinni í vetur af þjálfurum, fyrirliðum og formönnum félaganna í deildinni.
Hún missti þó af sjálfri verðlaunahátíðinni þar sem hún frétti einungis af valinu í fjölmiðlum, en skilaboð KKÍ í gegnum stjórnina hjá KR rötuðu ekki til hennar sjálfrar. Hún hefur verið valin í úrvalslið 1. deildar tvö undanfarin tímabil.
Hulda spilaði 28 leiki með KR síðastliðinn vetur, skoraði að meðaltali rúmlega 12 stig í leik, tók tæp sjö fráköst, gaf tvær stoðsendingar og var með 15,6 framlagsstig að meðaltali í leik.
Þá hafa Heiða Hlín Björnsdóttir og Eva Wium Elíasdóttir skrifað undir nýjan samning við Þór og taka slaginn með liðinu í úrvalsdeild.
Heiða Hlín Björnsdóttir er 25 ára bakvörður og framherji og fyrirliði Þórsliðsins. Hún var valin körfuknattleikskona Þórs í fyrra.
Heiða spilaði að meðaltali tæpar 30 mínútur í leik á liðnu tímabili þegar Þórsliðið tryggði sér sæti í efstu deild. Hún skoraði að meðaltali 11 stig í leik, tók rúm fjögur fráköst, átti tæpar tvær stoðsendingar og var með 8,1 framlagsstig að meðaltali í leik.
Eva Wium Elíasdóttir er 19 ára bakvörður og leikstjórnandi. Hún hefur spilað með meistaraflokki frá 2018, fyrst með Þór, síðan Tindastóli þegar Þórsliðið var lagt niður, og svo aftur með Þór frá 2021. Eva hefur spilað samtals 91 leik í meistaraflokki, þar af 74 með Þór.
Eva spilaði 31 leiki með Þórsliðinu á nýafstöðnu tímabili, að meðaltali rúmar 32 mínútur í leik. Hún skoraði að meðaltali 12 stig í leik, tók fimm fráköst, átti fjórar stoðsendingar og var með 11,2 framlagsstig að meðaltali. Eva leikur með U20-ára landsliði Íslands.