„Ég veit ekkert um körfubolta en svo lít ég á þjálfara Tindastóls og fer að tala um hvað mér finnist hann geggjaður,“ sagði Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, þegar rætt var um úrslitaeinvigi Vals og Tindastóls á Íslandsmóti karla í körfubolta.
Ragnar, sem er 36 ára, mætti á oddaleik liðanna á Hlíðarenda og endaði á að sitja við hliðin á Rögnu Margréti Brynjarsdóttur, unnustu Pavels Ermolinskijs sem þjálfar Tindastól.
„Hann var þarna kófsveittur og öskrandi að reyna að hjálpa liðinu sínu sem mér fannst geggjað,“ sagði Ragnar.
„Ég komst svo að því stuttu síðar að konan sem sat við hliðin á mér væri kona þjálfarans en ég veit reyndar ekkert hvort hún hafi heyrt í mér þegar ég var að hrósa honum,“ sagði Ragnar meðal annars í léttum tón.
Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan en þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.