Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við Maddie Sutton um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni á komandi tímabili, sem verður hennar annað tímabil með liðinu.
Hin bandaríska Sutton var algjör lykilleikmaður í Þórsliðinu sem hafnaði í 2. sæti 1. deildar í vor og vann sér inn sæti í efstu deild.
Hún er 25 ára gamall framherji sem er 183 sentimetrar á hæð. Sutton gekk til liðs við Þór síðastliðið sumar eftir eitt tímabil með Tindastóli.
Sutton lék 33 leiki með Þórsliðinu í vetur, skoraði tæplega 20 stig að meðaltali, tók tæplega 17 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og var með 31,4 framlagsstig að meðaltali í leik.
Í fráköstum og framlagsstigum var hún í 2. sæti í 1. deild, 3. sæti yfir fjölda stoðsendinga og 7. sæti í stigaskori.
„Hún er frábær í hóp og við erum heppin að fá hana aftur. Hún verður klárlega mikilvægt púsl í liðinu fyrir átökin í efstu deild á komandi tímabili,“ sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, í tilkynningur frá körfuknattleiksdeild félagsins.