Íslandsmeistararnir fá efnilegan leikmann

Anna Fríða Ingvarsdóttir og Grímur Atlason.
Anna Fríða Ingvarsdóttir og Grímur Atlason. Ljósmynd/Valur

Körfuknattleikskonan Anna Fríða Ingvarsdóttir hefur komist að samkomulagi við Íslandsmeistara Vals um að leika með liðinu næstu tvö tímabil.

Anna Fríða er 18 ára bakvörður sem kemur frá KR, þar sem hún lék upp alla yngri flokkana og spilaði í vetur 19 leiki með meistaraflokki félagsins í 1. deildinni.

Hún lék einnig með sameiginlegu liði Vals og KR í ungmennaflokki í vetur en liðið hlaut silfurverðlaun á Íslandsmótinu fyrr í mánuðinum.

„Anna Fríða er gríðarlega efnilegur leikmaður en hún lenti í slæmum meiðslum þegar hún var 16 ára sem héldu henni frá vellinum í 12 mánuði. Hún var valin í U15 og U16 landslið Íslands og er núna í úrtökuhópi fyrir U18. Við bjóðum Önnu Fríðu velkomna á Hlíðarenda en hún sýndi það í vetur að það fer henni vel að spila í rauðu,“ sagði í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert