Miami sendi Boston í sumarfrí

Jimmy Butler hjá Miami sækir og Jayson Tatum hjá Boston …
Jimmy Butler hjá Miami sækir og Jayson Tatum hjá Boston verst í leiknum í nótt. AFP/Maddie Meyer

Miami Heat vann sannfærandi sigur á Boston Celtic á útivelli í nótt, 103:84, í oddaleik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA, og leikur þar með til úrslita við Denver Nuggets um NBA-meistaratitilinn.

Miami tókst því að hrista af sér þrjá tapleiki í röð, eftir að hafa komist í 3:0 í einvíginu, og vann það að lokum 4:3. Boston tókst því ekki að verða fyrsta lið sögunnar til að vinna einvígi í úrslitakeppni NBA eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjunum.

Þetta er í fyrsta sinn í 24 ár sem lið sem endar í áttunda sæti í deildakeppni vetrarins kemst í úrslitaeinvígið um meistaratitilinn.

Jimmy Butler skoraði 28 stig fyrir Miami og Caleb Martin var með 26 stig og 10 fráköst. Butler var valinn besti leikmaðurinn í úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Jaylen Brown skoraði 19 stig fyrir Boston og Derrick White 18.

Einvígi Denver og Miami hefst í Denver aðfaranótt föstudagsins en vinna þarf fjóra leiki til að standa uppi sem NBA-meistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert