Samdi við Njarðvík til tveggja ára

Elías Bjarki Pálsson og Halldór Karlsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.
Elías Bjarki Pálsson og Halldór Karlsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Ljósmynd/umfn.is

Njarðvíkingar hafa samið við einn af sínum efnilegustu körfuboltamönnum, Elías Bjarka Pálsson, um að leika áfram með félaginu næstu tvö árin.

Elías, sem verður 19 ára í október, lék með U18 ára landsliðinu síðasta sumar og hefur verið valinn í U20 ára landsliðið fyrir verkefni komandi sumars. Hann leikur sem bakvörður og er 1,96 metrar á hæð.

Hann var í leikmannahópi Njarðvíkinga í 19 leikjum í úrvalsdeildinni í vetur og var auk þess á venslasamningi hjá Hamri þar sem hann spilaði 29 leiki í 1. deildinni og tók þátt í að koma Hveragerðisliðinu upp í úrvalsdeildina.

Elías á ekki langt að sækja hæfileikana því foreldrar hans, Páll Kristinsson og Pálína Gunnlaugsdóttir, léku bæði með Njarðvík, sem og bróðir hans, landsliðsmaðurinn Kristinn Pálsson, sem er leikmaður Aris Leeuwarden í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert