Eftir að hafa rúllað upp Los Angeles Lakers í úrslitarimmu Vesturdeildarinnar, fær Denver Nuggets nú loks að eiga við Miami Heat í Lokaúrslitum NBA í körfubolta eftir níu daga hvíld.
Úrslitarimma liðanna hefst í nótt í Klettafjöllum Colorado, klukkan 00.30 að íslenskum tíma, en Miami þurfti alla sjö leikina gegn Boston Celtics í úrslitakeppninni í Austurdeildinni og mætir því í þunna loftið eftir þriggja daga hvíld.
Á meðan Miami og önnur lið Austurdeildarinnar börðust hvert við annað – þar sem aldrei var að vita hvort liðið myndi leika vel eða illa – fór Denver í gegnum keppnina vestanmegin án erfiðleika.
Keppni Miami og Boston var einkennandi fyrir keppnina í Austurdeildinni allt keppnistímabilið. Boston og Milwaukee Bucks virtust vera bestu liðin eftir deildakeppnina, en þegar í úrslitakeppnina kom gat hvorugt liðið sýnt nægilegan styrk til að komast í Lokaúrslitin. Miami rétt skreið inn í úrslitakeppnina eftir að hafa unnið umspilið gegn Chicago Bulls.
Miami er fyrsta liðið í 24 ár sem kemst í Lokaúrslitin úr áttunda sætinu, og þrátt fyrir að komast í Lokaúrslitin tapaði Heat þremur leikjum í röð gegn Boston þar til að liðið loks náði að klára dæmið í oddaleiknum.
Með sigrinum náði Miami að hefna fyrir tapið gegn Boston í oddaleik liðanna í fyrra í úrslitakeppninni. „Við höfðum ekki gleymt tapinu frá í fyrra og það dreif okkur áfram í leiknum í kvöld,” sagði Erik Spoelstra, þjálfari Heat, eftir leikinn.
„Að komast í Lokaúrslitin er hlutur sem við allir stefnum að á hverju keppnistímabili, og í kvöld sýndu leikmennirnir að þeir væru tilbúnir í að yfirvinna hvaða mótlæti sem var.”
Þrátt fyrir þennan sigur er eins gott fyrir leikmenn Miami að líta aðeins fram á við, því þeirra bíður nú erfiðara verkefni gegn Denver en það sem þeir sáu í úrslitakeppninni austan megin.
Slíkir hafa yfirburðir Denver verið í keppninni í Vesturdeildinni í úrslitakeppninni nú að veðbankar hér vestra spá því nú að liðið hafi 80% möguleika á að vinna titilinn – væntanlega þann fyrsta í sögu liðsins.
Það væru þó mistök fyrir leikmenn liðsins að vanmeta Miami – sérstaklega í fyrsta leiknum – því Miami hefur einfaldlega sýnt í þessari úrslitakeppni að Jimmy Butler og félagar halda áfram að koma á óvart.
Miami mun þurfa að eiga við þreytu og þunna loftið í Denver í fyrsta leiknum, en þar á móti kemur að leikmenn Denver hafa ekki leikið í níu daga og það gæti tekið leikmenn Nuggets allan fyrri hálfleikinn að komast af stað aftur.
Þrátt fyrir að leika vel alla deildakeppnina, virtust margir NBA-sérfræðingar á því að erfitt væri að sjá liðið komast óhindrað inn í Lokaúrslitin. Þessir sérfræðingar sáu bæði Los Angeles Lakers og Phoenix Suns, með stórstjörnur innanborðs, sem hindranir sem erfitt væri fyrir Nuggets að yfirbuga. Þessi lið áttu hins vegar ekki minnsta möguleika gegn Denver þegar leikirnir hófust í raun.
Það er eins og grínistinn Rodney Dangerfield var þekktur fyrir að segja: „I get no respect.”
Nei, Denver hefur ekki fengið mikla virðingu hjá svokölluðum sérfræðingum allt keppnistímabilið. Það er, þangað til nú. Í dag eru allir allt í einum komnir á hljómsveitarpallinn hjá Denver eftir að allar stórstjörnurnar í Vesturdeildinni voru sendar heim!
Víst er að bæði Jimmy Butler og Bam Adebayo muni reyna allt sem þeir geta í þessari viðureign fyrir Miami, en erfitt er að sjá Adebayo eiga gott tækifæri á að stöðva Nikola Jokic í þessum leikjum.
Jokic hefur verið óstöðvandi til þessa í úrslitakeppninni og ef Anthony Davis hjá LA Lakers gat ekki stöðvað hann í síðustu umferð, er ekki sjáanlegt að Adebayo geti gert betur.
Þar á ofan hefur leikstjórnandinn Jamal Murray leikið firnavel fyrir Denver alla úrslitakeppnina með tæp 28 stig að meðaltali, auk þess að stjórna sóknarleiknum. Samvinna hans og Jokic hefur verið unun að sjá allt keppnistímabilið og erfitt er að sjá hvernig að Miami á að geta stöðvað þessa kappa nú.
Það kæmi ekki á óvart hér ef Denver ynni sinn fyrsta meistaratitil í fjórum eða fimm leikjum.