Snæfell úr Stykkishólmi hefur fengið sæti í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næsta keppnistímabili.
ÍR, sem hafnaði í áttunda og neðsta sæti deildarinnar í vetur, átti að halda sæti sínu vegna fjölgunar úr átta liðum í tíu en hefur ákveðið að senda ekki lið sitt í deildina.
Snæfell hafnaði í þriðja sæti 1. deildar í vetur, á eftir Stjörnunni og Þór frá Akureyri, og fylgir þeim því upp.
Snæfell lék síðast í deildinni tímabilið 2020-21 en hefur spilað í 1. deild tvö undanfarin tímabil. Félagið varð Íslandsmeistari árin 2014, 2015 og 2016 og lék til úrslita um titilinn árið 2017.