Körfuknattleiksdeild Þórs hefur komist að samkomulagi við belgíska framherjann Lore Devos um að hún leiki með kvennaliðinu á komandi tímabili.
Þór verður nýliði í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Devos er 24 ára gömul og 184 sentimetrar á hæð og kemur frá belgíska liðinu Castors Braine. Hún á einnig að baki fjögurra ára feril með háskólaliði Colorado State, þar sem hún skoraði 13 stig og tók sjö fráköst að meðaltali á síðasta tímabilinu sínu í Bandaríkjunum.
Eftir útskrift lék Devos með BCF Elfic Fribourg í svissnesku deildinni þar sem hún skilaði tíu stigum og fimm fráköstum í leik. Þar tók hún tók einnig þátt í Eurocup leikjum liðsins og var með átta stig og sex fráköst að meðaltali. Vann hún bæði deildar- og bikarmeistaratitil í Sviss.
Devos hélt þá aftur til heimalandslins og var með sjö stig og fjögur fráköst að meðaltali fyrir Castors Braine ásamt því að leika með liðinu í Eurocup á síðasta tímabili.
„Lore kemur til með að styrkja okkur á flestum vígstöðvum. Hún er hörkudugleg varnarlega og getur dekkað leikmenn af nánast öllum stærðum og gerðum. Sóknarlega er hún með risastórt vopnabúr og eru ákvörðunartaka og leikskilningur hennar framúrskarandi.
Við erum mjög spennt að fá Lore og vonum að hún komi inn með mikinn kraft í þetta fyrsta tímabil stelpnanna í efstu deild,“ sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild félagsins.