Daníel Andri Halldórsson mun stýra kvennaliði Þórs í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á komandi tímabili. Þá verður Hlynur Freyr Einarsson aðstoðarþjálfari hans.
Daníel hefur stýrt liðinu undanfarin tvö ár ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka Þórs og þjálfar hann einnig yngri flokka hjá félaginu.
Á nýafstöðnu tímabili tapaði Þór í umspili við Stjörnuna um sæti í úrvalsdeild kvenna á komandi ári. Hinsvegar var samþykkt á ársþingi KKÍ í mars sl. að fjölga liðum í úrvalsdeildinn sem þýddi að annað sætið í 1. deild dugði Þór til að komast upp í úrvalsdeild.
Þá hefur Hlynur Freyr Einarsson verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari Þórs. Hlynur hefur undanfarið spilað með karlaliði Þórs í 1. deild, en hann kom til liðsins frá Tindastóli fyrir tímabilið 2020-21. Aðstoðarþjálfarastarfið mun verða fyrsta þjálfunarstarf Hlyns í meistaraflokki en hann hefur þjálfað yngri flokka Þórs undanfarin ár.