Gabe Vincent var stigahæstur hjá Miami Heat þegar liðið heimsótti Denver Nuggets í öðrum leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.
Leiknum lauk með naumum sigri Miami, 111:108, en Vincent skoraði 23 stig og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.
Miami var með yfirhöndina nánast allan leikinn en Jamal Murray fékk tækifæri til þess að jafna metin fyrir Denver þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka en þriggja stiga skot hans geigaði.
Jimmy Butler og Bam Adebayo skoruðu 21 stig hvor fyrir Miami en Nikola Jokic var langstigahæstur hjá Denver með 41 stig, ellefu fráköst og fjórar stoðsendingar.
Staðan í einvíginu er því 1:1 en þriðji leikur liðanna fer fram í Miami, aðfaranótt fimmtudags.