Dani inn og Bandaríkjamaður út

Gustav Suhr-Jessen er kominn til Hattar.
Gustav Suhr-Jessen er kominn til Hattar. Ljósmynd/Höttur

Danski körfuknattleiksmaðurinn Gustav Suhr-Jessen hefur gert samning við Hött og mun leika með liðinu á næstu leiktíð. Hann lék síðast með Horsens í dönsku úrvalsdeildinni.

Suhr-Jessen var samherji Timothy Guers í bandaríska háskólaboltanum, en Guers lék einmitt með Hetti tvö síðustu ár. Fyrsta árið í 1. deild og annað árið í úrvalsdeild, þar sem Höttur leikur á næstu leiktíð. 

Í tilkynningu á Facebook-síðu Hattar kemur fram að Guers hafi yfirgefið félagið og samið við annað félag í Japan. Nýr leikmaður verður kynntur hjá Hetti í hans stað innan tíðar.

„Við bindum miklar vonir við Gustav þar sem hann er afar fjölhæfur leikmaður sem hentar vel í okkar hóp,“ segir í yfirlýsingu Hattar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert