Hársbreidd frá fyrsta meistaratitlinum

Kentavious Caldwell-Pope, Nikola Jokic, Michael Porter Jr. og félagar í …
Kentavious Caldwell-Pope, Nikola Jokic, Michael Porter Jr. og félagar í Denver Nuggets eru einum sigri frá fyrsta titlinum. AFP/Getty Images/Megan Briggs

Vesturdeildarlið Denver Nuggets er einum sigri frá sínum fyrsta meistaratitli í sögu félagsins eftir sannfærandi útisigur á Miami Heat, 108:95, í úrslitaeinvígi bandarísku NBA-deildarinnar í Miami í nótt. 

Denver-liðið er komið í 3:1-forystu í einvíginu en fjóra sigra þarf til að tryggja sér meistaratitilinn. 

Denver var yfir með fjórum stigum í hálfleik en frábær þriðji leikhluti sá til þess að liðið fór með 13 stiga forystu inn í þann fjórða, 86:73. Í fjórða leikhluta lék Denver af miklum aga og sigldi sigrinum heim. 

Aaron Gordon var magnaður í liði Denver en hann skilaði 27 stigum, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar. Serbinn ótrúlegi Nikola Jokic skoraði 23 stig og tók 12 fráköst ásamt því að gefa fjórar stoðsendingar. Í liði Miami var Jimmy Butler atkvæðamestur með 25 stig, sjö fráköst og sjö stoðsendingar. 

Næsti leikur liðanna fer fram í Denver, aðfaranótt þriðjudags, þar sem heimamenn geta tryggt sér sinn fyrsta titil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert