Körfuknattleiksdeild Hauka hefur komist að samkomulagi við Ítalann David Okeke um að hann leiki með karlaliðinu á komandi tímabili.
Okeke hefur leikið með Keflavík undanfarin tvö tímabil en missti að vísu af stórum hluta fyrra tímabilsins vegna meiðsla eftir að hafa byrjað það af gífurlegum krafti.
Á síðusta tímabili skoraði hann 11 stig og tók tæp 7 fráköst að meðaltali í leik hjá Keflavík.
Okeke er 24 ára gamall framherji sem er 204 sentimetrar á hæð. Hann lék með Rustavi í Georgíu, þar sem hann vann meistaratitil, áður en hann kom til Íslands en spilaði áður með ítölsku liðunum Auxilium Torino og Oleggio Magic. Okeke varð bikarmeistari með Torino árið 2018.
„Okeke var í silfurliði U19 ára liðs Ítalíu á HM 2017 og hefur meðal annars spilað í EuroCup. Því er þarna hörku leikmaður á ferð sem mun hjálpa Haukaliðinu í kringum körfuna.
Haukar bjóða Okeke velkominn í Hafnarfjörðinn,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Hauka.