Katla Rún Garðarsdóttir og körfuknattleiksdeild Keflavíkur hafa komist að samkomulagi um að hún leiki áfram með kvennaliðinu næstu tvö tímabil.
Katla Rún, sem er uppalin hjá Keflavík, er 24 ára gömul og hefur verið lykilmaður hjá liðinu undanfarin ár.
„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímabili. Hópurinn er bara að styrkjast frá því í fyrra og við erum allar reynslunni ríkari og með lið sem er fullt af hæfileikum,“ sagði hún í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur.
Keflavík stóð uppi sem deildarmeistari úrvalsdeildar á síðasta tímabili og hafnaði svo í öðru sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og sömuleiðis í bikarkeppninni.
„Við ætlum okkur stóra hluti og tilhlökkunin er mikil, við getum ekki beðið eftir því að byrja þetta,“ bætti Katla Rún við.