Denver Nuggets er bandarískur NBA-meistari í fyrsta skipti í 56 ára sögu félagsins en liðið vann Miami Heat, 94:89, í leik fimm í úrslitaeinvíginu í Denver í nótt. Denver vann rimmuna samtals 4:1.
Fyrir leikinn í nótt var staðan í einvíginu 3:1 Denver í vil, en fjóra sigra þurfti til að tryggja sér meistaratitilinn.
Eins og svo oft áður var Serbinn Nikola Jokic atkvæðamestur en hann skoraði 28 stig, tók 16 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar, hann var síðar valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Michael Porter JR. átti líka afar góðan leik en hann skoraði 16 stig og tók 13 fráköst. Jimmy Butler var stigahæstur hjá Miami með 21 stig.
Kaflaskiptur en gæðalítill leikur
Fyrsti leikhluti var mjög kaflaskiptur. Miami-liðið skoraði fimm fyrstu stig leikhlutans en lítið var skorað í byrjun leiks. Eftir það komust Denver-menn hægt og rólega inn í leikinn og náðu mest átta stiga forystu, 16:8.
Miami náði góðum kafla eftir það og var yfir að fyrsta leikhluta loknum, 24:22. Bam Adebayo var magnaður fyrir Miami-liðið í fyrsta leikhluta en hann skoraði 14 stig og tók sex fráköst.
Sömu söguna má segja um annan leikhluta en Miami-liðið byrjaði hann betur og komst mest tíu stigum yfir, 49:39. Þá vann Denver sig til baka og minnkaði muninn í fjögur stig, 49:45.
Miami var aftur á móti aftur sterkari aðilinn á lokamínútunum og fór inn í hálfleikinn sjö stigum yfir, 51:44.
Adebayo var atkvæðamestur í hálfleik með 18 stig, níu fráköst og eina stoðsendingu. Hjá Denver voru Nikola Jokic, með níu stig, átta fráköst og fjórar stoðsendingar, og Michael Porter Jr., með níu stig, átta fráköst og tvær stoðsendingar, að leiða vagninn.
Í þriðja leikhluta minnkuðu Denver-menn muninn hægt og rólega en náðu ekki að komast yfir. Þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum setti Michael Porter JR. þrist og kom Denver yfir, 69:66, og kom sér í leiðinni í 16 stig.
Kyle Lowry átti þó lokastigin en hann setti frábæran þrist undir lok fyrri leikhlutans og sá til þess að Miami væri yfir, 71:70, að leikhlutanum loknum.
Denver-liðið var mun beittara í byrjun fjórða leikhluta og náði snemma forystunni. Jimmy Butler hélt áfram að vera alveg ótengdur og nýtti stöður sínar hrikalega. Lítið var skorað og skotin hræðileg.
Jimmy Butler reif sig síðan í gang og skoraði 13 stig í röð fyrir Miami-liðið. Það dugði þó ekki en undir lokin klikkuðu Miami-menn á ögurstundu.
Að lokum vann Denver fimm stiga sigur, 94:89, í heldur gæðalitlum leik, þar sem lítið var skorað miðað við deildina nú til dags.