Njarðvíkingar eru byrjaðir að styrkja karlalið sitt á ný fyrir næsta tímabil í körfuboltanum en þeir hafa nú fengið bandarískan leikmann í sínar raðir.
Sá heitir Luke Moyer, 29 ára gamall bakvörður, sem lék síðast með Zamora í spænsku C-deildinni. Þar á undan lék hann með Titebi í Georgíu og spilaði einnig í Mexíkó eftir að háskólavistinni í Bandaríkjunum lauk.
Moyer er einnig með ítalskt ríkisfang þannig að Njarðvíkingar hafa áfram pláss fyrir Bandaríkjamann í sínu liði.
Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur segir á heimasíðu félagsins að hann hafi fylgst með Luke í töluverðan tíma, hann sé vinnusamur leikmaður og frábær skytta. „Hann er einn sá allra duglegasti á sumrin og er alltaf að bæta sinn leik á hverju ári," segir Benedikt um nýjasta liðsmann Njarðvíkinga.