Jakob Örn Sigurðarson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs KR í körfuknattleik en hann tekur við liðinu af Helga Magnússyni sem lét af störfum á dögunum.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en Jakob, sem er 41 árs gamall, skrifaði undir þriggja ára samning í Vesturbænum.
Hann verður einnig framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildarinnar, sem er nýtt starf innan deildarinnar, en Adama Darboe verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.
Jakob þekkir vel til í Vesturbænum en hann hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með liðinu, árið 2000 og 2009. Þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari Helga undanfarin tvö tímabil.