Forráðamenn bandarísku NBA-deildarinnar í körfubolta hafa úrskurðað Ja Morant, stórstjörnu Memphis Grizzlies, í 25 leikja bann vegna tveggja myndbanda sem birtust á Instagram.
Morant sást í tvígang með byssu í höndunum á myndskeiðum sem voru birt á samfélagsmiðlinum. Að sögn Adam Silver, forstjóra NBA-deildarinnar, hafa myndböndin skaðleg áhrif á deildina.
„Það veldur okkur áhyggjum að hann sé aftur með skotvopn á samfélagsmiðlum. Það er hætt við að ungir aðdáendur, sem líta upp til hans, fari nú að ganga með skotvopn.
Við teljum að 25 leikja bann sé viðeigandi og með því sendum við skilaboð að hættuleg meðferð skotvopna verður ekki liðin,“ var haft eftir honum í yfirlýsingu deildarinnar.
Bannið tekur gildi í upphafi næstu leiktíðar og missir bakvörðurinn því af 25 fyrstu leikjum Mepmphis á næsta tímabili.