Svartfjallaland tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum EM 2023 í körfuknattleik kvenna með þægilegum 63:49-sigri á Ítalíu í 16-liða úrslitum keppninnar í Tel Aviv í Ísrael.
Svartfellingar lögðu grunninn að sigrinum með mögnuðum fyrsta leikhluta, en staðan að honum loknum var 22:8.
Eftir fyrsta leikhlutann náði Ítalía ekki að koma sér nægilega vel inn í leikinn og niðurstaðan að lokum sanngjarn 14 stiga sigur Svartfjallalands.
Milica Jovanovic var stigahæst í leiknum með 17 stig fyrir Svartfellinga, auk þess sem hún tók átta fráköst.
Marija Lekovic bætti við 15 stigum og fjórum fráköstum og Natasha Mack var einkar öflug í frákastabaráttunni, en hún skoraði 13 stig tók 15 fráköst.
Stigahæst í liði Ítalíu var Olbis Andre með tíu stig.
Svartfjallaland mætir Frakklandi í átta liða úrslitunum næstkomandi fimmtudag.