Körfuknattleikssnillingurinn Bradley Beal er á leiðinni til Phoenix Suns frá Washington Wizards.
Beal hefur leikið allan ferilinn hjá Washington síðan hann kom í deildina árið 2012. Undanfarin ár hefur ekkert verið að frétta hjá Washington-liðinu og á síðustu fimm árum hefur liðið aðeins einu sinni komist í úrslitakeppnina, þar sem það var sigrað af Philadelphia 76ers 4:1 í fyrstu umferð.
Til að bæta enn einni stjörnunni við þarf Phoenix að losa leikmenn en í staðinn fyrir Beal mun Washington fá gömlu kempuna Chris Paul og Landry Shamet ásamt fjöldanum öllum af valréttum.
Það er þó ekki víst hvort Paul endi hjá Washington en annað lið gæti blandað sér inn í samninginn og sótt Paul. Bæði félögin í Los Angeles, Lakers og Clippers, hafa verið orðuð við Paul.
Phoenix-liðið er heldur betur stjörnum prýtt en ásamt Beal leika Kevin Durant og Devin Booker með félaginu. Framtíðin er aftur á móti ekki eins björt hjá Phoenix, og mun liðið þurfa að vinna á næstu árum til þess að stjörnukaupin skili sér.