Íslenska U18-ára stúlknalandsliðið í körfuknattleik mátti sætta sig við tap, 51:71, fyrir jafnöldrum sínum frá Finnlandi þegar liðin áttust við á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð í dag.
Finnar voru með undirtökin stærstan hluta leiksins og leiddu til að mynda með tíu stigum, 33:23, í hálfleik.
Íslenska liðið beit í skjaldarrendur og var búið að minnka muninn niður í aðeins fimm stig, 44:39, þegar þriðji leikhluti var úti.
Fjórði og síðasti leikhluti var hins vegar alfarið eign Finna, sem unnu hann með 15 stigum og leikinn að lokum með 20 stiga mun.
Stigahæstar hjá íslenska liðinu voru Sara Líf Boama og Anna María Magnúsdóttir, báðar með níu stig.
Sara Líf lét einnig afar vel til sín taka í frákastabaráttunni enda tók hún 16 slík og var lang frákastahæst í leiknum. Hún bætti þá við sex stoðsendingum.
Stigahæst í leiknum var Elina Aarnisalo með 22 stig.
Ísland hefur nú leikið þrjá leiki á Norðurlandamótinu, unnið tvo og tapað einum. Er liðið í öðru sæti keppninnar á eftir toppliði Finnlands, sem hefur unnið alla þrjá leiki sína.
Næst mætir liðið heimastúlkum í Svíþjóð á morgun.