Rúnar Birgir Gíslason verður frá og með 1. september fyrstur Íslendinga til að gerast tæknifulltrúi FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandsins.
Körfuknattleikssamband Íslands skýrði frá því í dag að Rúnar hefði lokið námskeiðum á vegum FIBA sem hafi staðið yfir undanfarna átta mánuði og yrði formlega orðinn tæknifulltrúi FIBA 1. september. Alls eru 144 slíkir starfandi í heiminum og 63 þeirra í Evrópu.
Um hlutverk tæknifulltrúa FIBA segir í frétt KKÍ:
Tæknifulltrúi FIBA er hlutverk sem FIBA kom á laggirnar 2017 þegar landsliðin fóru að leika í landsliðsgluggum í stóru álfukeppnunum. Tæknifulltrúi er sendur á landsleiki til að vera augu og eyru FIBA á staðnum og aðstoða liðin við að framkvæma leikinn. Fylgja öllum FIBA stöðlum um framkvæmd leiks en fyrir FIBA er einmitt framkvæmd, ímyndin og útlit og eins að leikurinn fari fram eftir leikreglum mjög mikilvægt.
Atriði sem tæknifulltrúi þarf að hafa þekkingu á eru mörg svo sem öryggismál, markaðsmál, lyfjaeftirlit, sjónvarpsmál, leikreglur, búningar, taka út hótel og leikstaði, aðgengi fjölmiðla, vera eftirlitsmaður á meðan leiknum stendur og fleira.
Tæknifulltrúar eru einnig sendir í mót á vegum FIBA víðsvegar um heiminn til að sjá um afmarkaða þætti eins og til dæmis að stýra viðburðinum eða sjá um að vera tengiliður FIBA við mótshaldara án þess að vera eftirlitsmaður.
Rúnar Birgir hefur verið eftirlitsmaður á vegum FIBA undanfarin ár og stýrir m.a. U20 ára móti kvenna í A-deild í sumar.