Spánn varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM 2023 í körfuknattleik kvenna með því að vinna öruggan sigur á Þýskalandi í átta liða úrslitunum í Ljubljana í Slóveníu.
Spánverjar voru með tögl og hagldir allan leikinn og unnu að lokum einkar öruggan 25 stiga sigur, 67:42.
Sterkur fyrri hálfleikur gaf tóninn þar sem staðan var 33:16 að honum loknum.
Eftirleikurinn reyndist því auðveldur.
Stigahæst í leiknum var Laura Gil með 13 stig og 11 fráköst fyrir Spán.
Liðsfélagar hennar, Laura Quevedo, Queralt Casas og Maite Cazorla voru skammt undan, Quevedo með 11 stig og Casas og Cazorla með tíu hvor.
Sonja Greinacher var stigahæst hjá Þýskalandi með níu stig.
Spánn mætir Ungverjalandi í undanúrslitunum á laugardag.