Belgar flugu í undanúrslit – söguleg þrenna

Emma Meesseman (t.v.) náði einstakri þrefaldri tvennu í dag.
Emma Meesseman (t.v.) náði einstakri þrefaldri tvennu í dag. Ljósmynd/FIBA

Belgía lenti ekki í nokkrum vandræðum með Serbíu þegar liðin áttust við í átta liða úrslitum EM 2023 í körfuknattleik kvenna í Ljubljana í Slóveníu í dag.

Belgar unnu að lokum geysilega öruggan 40 stiga sigur, 93:53.

Grunnurinn var lagður strax í fyrsta leikhluta þar sem Belgía fór á kostum og var með 20 stiga forystu, 28:8, að honum loknum.

Eftirleikurinn reyndist því auðveldur. 

Emma Meesseman átti stórleik í liði Belgíu er hún náði þrefaldri tvennu. Skoraði hún 15 stig, tók 13 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Skráði Meesseman sig þar með í sögubækurnar þar sem hún er fyrsti leikmaðurinn til að ná þrefaldri tvennu á EM kvenna í körfuknattleik.

Liðsfélagi hennar Julie Allemand skoraði sömuleiðis 15 stig og gaf auk þess ellefu stoðsendingar.

Stigahæst í leiknum var Yvonne Anderson í liði Serbíu. Hún skoraði 20 stig og tók sex fráköst.

Belgía mætir Frakklandi eða Svartfjallalandi í undanúrslitunum og kemur mótherjinn í ljós síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert