Karl Ísak Birgisson hefur samið við körfuknattleiksdeild Breiðabliks um að leika með karlaliði félagsins á næsta tímabili.
Karl Ísak er 18 ára gamall framherji sem er 198 sentimetrar að hæð og kemur frá uppeldisfélagi sínu Fjölni.
Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands undanfarin ár og þykir mikið efni.
Á síðasta tímabili skoraði hann átta stig og tók fjögur fráköst á 20 mínútum að meðaltali í leik með Fjölni í næstefstu deild.
Breiðablik leikur áfram í úrvalsdeild á næsta tímabili eftir að hafa hafnað í 10. sæti af 12 liðum á því síðasta.