Álftanes hefur samið við bandaríska körfuknattleiksmanninn Douglas Wilson um að leika með liðinu á næsta tímabili, því fyrsta í efstu deild í sögu félagsins.
Wilson er 24 ára gamall miðherji og kraftframherji sem lék með ógnarsterku háskólaliði South Dakota State Jackrabbits um þriggja ára skeið í efstu deild háskólaboltans vestanhafs.
Þar stóð hann sig einkar vel, var með um 17 stig að meðaltali í leik á tímabilunum þremur og er á meðal efstu manna í öllum helstu tölfræðiþáttum í sögu skólans.
Wilson var þá valinn besti leikmaður deildarinnar er Jackrabbits vann 30 leiki á einu tímabili, sem er met í deildinni og hjá liðinu.
Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Álftaness kemur fram að í Marsfárinu svokallaða, einum vinsælasta íþróttaviðburði Bandaríkjanna þar sem sterkustu háskólalið landsins etja kappi, hafi Wilson verið tilnefndur til hinna virtu Lou Henson-verðlauna, sem veitt eru bestu leikmönnum hinna svokölluðu Mid-Major skóla um gjörvöll Bandaríkin.
Þar er einnig greint frá því að Wilson hafi útskrifast úr háskólanum á síðasta ári og verið á leið til sterks liðs í Frakkland þegar læknar hjá umræddu félagi vildu gera frekari rannsóknir á hjarta hans.
Þótti þeim það í stærra lagi og hélt hann því aftur heim til Bandaríkjanna til að gangast undir frekari rannsóknir. Eftir að hafa gengið úr skugga um að allt sé í lagi er Wilson búinn að fá grænt ljós á að halda áfram körfuknattleiksiðkun og gerir það hér á landi.