Ungverjar í undanúrslit eftir mikla dramatík

Ungverjar fagna sæti í undanúrslitum.
Ungverjar fagna sæti í undanúrslitum. Ljósmynd/FIBA

Ungverjaland tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í körfuknattleik með afar dramatískum sigri gegn Tékklandi í 8-liða úrslitum keppninnar í Ljubljana í Slóveníu í dag.

Leiknum lauk með eins stigs sigri Ungverja, 62:61, en það var Debora Dubei sem skoraði sigurkörfuna þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.

Tékkar fengu tækifæri til þess að jafna leikinn en þriggja stiga skot Renötu Brezinovu geigaði og Ungverjaland fagnaði sigri.

Cyesha Goree var stigahæst hjá Ungverjalandi með 22 stig, sjö fráköst og tvær stoðsendingar en Natalie Stoupalova skoraði 20 stig fyrir Tékkland.

Ungverjar mæta annaðhvort Spáni eða Þýskalandi í undanúrslitum en það skýrist síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert