Sá eftirsóttasti kominn með félag

Frakkinn Victor Wembanyama var að sjálfsögðu valinn fyrstur.
Frakkinn Victor Wembanyama var að sjálfsögðu valinn fyrstur. AFP/Timothy A. Clary

Franski körfuknattleiksmaðurinn Victor Wembanyama er kominn með félag í bandarísku NBA-deildinni, San Antonio Spurs. 

San Antonio fékk fyrsta valkost í nýliðavalinu sem fram fór í nótt. Valdi félagið að sjálfsögðu franska landsliðsmanninn, en önnur eins eftirvænting fyrir leikmanni hefur ekki sést síðan að LeBron James kom í deildina árið 2003. 

Wembanyama gengur í hóp góðra manna sem valdir voru fyrstir af San Antonio sem hefur tvisvar sinnum áður átt fyrsta valkost. Þar völdu þeir goðsagnirnar David Robinson (árið 1987) og Tim Duncan (árið 1997) og verður athyglisvert að sjá hvort Frakkinn fylgir í fótspor þeirra.

Þá valdi Charlotte Hornets, með annan valkost, Brandon Miller. Scoot Henderson fer til Portland Trail Blazers sem var með þriðja valkost. 

Thompson-tvíburarnir Amen og Ausar voru svo fjórðu og fimmtu í valinu en Amen, sem var fjórði, fer til Houston Rockets og Ausar til Detroit Pistons. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert