Belgíska kvennalandsliðið í körfuknattleik tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í Slóveníu með fjögurra stiga sigri á Frökkum, 67:63, í kvöld.
Belgíska liðið byrjaði mun betur og eftir fyrsta leikhluta var það tíu stigum yfir, 18:8. Belgar juku forskot sitt í öðrum leikhluta og voru yfir með fjórtán stigum í hálfleik, 44:30.
Frakkar sóttu aðeins í sig veðrið í síðari hálfleik, en það dugði ekki og Belgía fer því í úrslitin þar sem Spánn bíður.
Hjá Belgíu var Emma Meesseman langatkvæðamest með 24 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar. Hjá Frakklandi var Sandrine Gruda stigahæst með 17 stig.
Úrslitaleikurinn verður leikinn á morgun klukkan 18.