Frakkland tryggði sér bronsverðlaun á EM 2023 í körfubolta kvenna með því að hafa örugglega betur gegn Ungverjalandi, 82:68, í leiknum um bronsið í Ljubljana í Slóveníu í dag.
Eins og svo oft áður í keppninni lagði sigurliðið grunninn að sigrinum með mögnuðum fyrsta leikhluta.
Frakkar voru með 18 stiga forystu, 26:8, að fyrsta leikhluta loknum og áttu ekki í teljandi vandræðum með Ungverja það sem eftir lifði leiks.
Ungverjaland náði prýðis áhlaupi í þriðja leikhluta og var þá búið að minnka muninn niður í 12 stig, 61:49.
Í fjórða leikhluta hleyptu Frakkar Ungverjum ekki nær sér en níu stigum, og það í blálokin, og sigldu að lokum öruggum 14 stiga sigri í höfn.
Hannes S. Jónsson, nýkjörinn varaforseti FIBA Europe, afhenti franska liðinu bronsverðlaunin að leik loknum.
Mamignan Touré var stigahæst í liði Frakklands með 20 stig.
Stigahæst í leiknum var hins vegar Virag Kiss með 21 stig og sjö fráköst fyrir Ungverjaland.
Frakkar höfðu hafnað í öðru sæti á undanförnum fimm Evrópumótum og vann í dag til bronsverðlauna á EM í annað sinn, en liðið hefur tvívegis orðið Evrópumeistari, síðast árið 2009.