„Ég var mjög ánægður fyrir hans hönd,“ sagði knattspyrnumaðurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, þegar rætt var um fyrsta Íslandsmeistaratitil Tindastóls í körfuknattleik karla.
Birkir Már, sem er 38 ára gamall, er mikill Valsari en Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, var í lykilhlutverki hjá Valsmönnum á síðustu leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 30 ár.
„Ég er mikill Pavels maður og þar sem Valur vann ekki fannst mér allt í lagi að Pavel og Sauðárkrókur gætu fagnað,“ sagði Birkir Már.
„Mér finnst alltaf gaman þegar litlir bæir út á landi vinna stóra bikara því þetta gerir svo mikið fyrir þessi samfélög,“ sagði Birkir Már meðal annars.
Hægt er að hlusta á umræðuna í heild í spilaranum hér fyrir ofan en þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.