Frækinn sigur í framlengingu

Agnes María Svansdóttir var stigahæst hjá Íslandi í dag.
Agnes María Svansdóttir var stigahæst hjá Íslandi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U20 ára lið kvenna í körfuknattleik vann sterkan sigur á Noregi, 84:74, og þurfti til þess framlengingu í fyrsta leik Norðurlandamótsins í Södertälje í Svíþjóð í dag.

Ísland var skrefi framar stærstan hluta leiksins en Noregur þó aldrei langt undan.

Staðan í hálfleik var 34:30, Íslandi í vil, en áður en fjórði leikhluti var úti hafði Noregur jafnað metin í 74:74.

Því þurfti framlengingu til þess að knýja fram sigurvegara, þar sem íslenska liðið sýndi mátt sinn og megin og skoraði tíu stig gegn engu hjá norska liðinu.

Stigahæst í liði Íslands var Agnes María Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, með 18 stig. Tinna Guðrún Alexandersdóttir, leikmaður Hauka, var skammt undan með 17 stig. Eva Wium Elíasdóttir, leikmaður Þórs frá Akureyri, bætti við 15 stigum og fimm fráköstum.

Um frábæra liðsframmistöðu var að ræða þar sem fjöldi leikmanna til viðbótar létu afar vel að sér kveða.

Elísabeth Ýr Ægisdóttir úr Haukum skoraði 14 stig og Emma Theodorsson, leikmaður Bucknell Bison í bandaríska háskólaboltanum, skoraði 9 stig og tók 12 fráköst. Fyrirliðinn Vilborg Jónsdóttir úr Njarðvík skoraði þá ekkert stig en tók átta fráköst og gaf hvorki meira né minna en 16 stoðsendingar.

Næsti leikur Íslands á NM er á fimmtudaginn gegn Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka