Stórsigur íslensku drengjanna

Kristján Fannar Ingólfsson í leik með Stjörnunni gegn Val í …
Kristján Fannar Ingólfsson í leik með Stjörnunni gegn Val í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U18-ára lið drengja í körfuknattleik gjörsigraði jafnaldra sína frá Noregi í fyrsta leik liðanna á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð í morgun. Lokatölur urðu 96:60.

Ísland var með tögl og hagldir allan leikinn og leiddi með 16 stigum, 40:24, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn reyndist vera formsatriði fyrir íslensku drengina og niðurstaðan að lokum glæsilegur 36 stiga sigur.

Kristján Fannar Ingólfsson, leikmaður Stjörnunnar, var stigahæstur í liði Íslands með 20 stig og tók hann auk þess sex fráköst.

Birkir Hrafn Eyþórsson úr Selfossi var skammt undan með 16 stig og sex fráköst.

Brynjar Kári Gunnarsson úr Fjölni lék sömuleiðis afar vel og skoraði 15 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Stigahæstur í leiknum var Oscar Hellebust með 24 stig og fimm stoðsendingar fyrir Noreg.

Næsti leikur Íslands á NM er gegn Eistlandi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka